Um safnið
Rokksafn Íslands er sýning um sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi. Safnið er staðsett í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Á safninu er að finna tímalínu um sögu íslenskrar tónlistar á Íslandi allt frá árinu 1920 til dagsins í dag. Á meðal þeirra muna sem eru að finna á safninu er trommusett Gunnars Jökuls Hákonarsonar sem var m.a. notað á meistaraverkinu ...Lifun með Trúbrot, kjól sem Emilíana Torrini klæddist í myndbandinu Jungle Drum, tréskúlptúr af reggí-hljómsveitinni Hjálmum, lúðrasveitarjakka sem Stuðmenn klæddust í myndinni Með allt á hreinu, kjól af Elly Vilhjálms, styttu af Rúnari Júlíussyni, flygil úr eigu Ragga Bjarna og þannig mætti lengi telja.